Afslöppunarhelgin mikla

Ég naut þess að setjast ofan í skærbleikt vatnið og finn hitann mýkja upp alla vöðva. Ég veit bara held ég ekkert notalegra en heitt bað á meðan maður hlustar á tónlist og blaðar í bók. Svo ég tali nú ekki um ef baðið er poppað upp með annað hvort freyðibaði eða baðkúlu frá uppáhaldsbúðinni minni.

Ég get alveg gleymt mér við að skoða þar, pota í, lykta af. Búðin heitir Lush og er algjör lúxus. Ég segi það ef þið hafið ekki prófað freyðibaðið frá þeim sem kemur í föstu formi þá er það eitthvað sem er þess virði að prófa. Elska það. Í alvörunni.

Ég ákvað að nota tækifærið á meðan heimasætan vann og prinsinn var hjá stuðningsfjölskyldunni til að slaka á. Endurhlaða. Og það er ég svo sannarlega búin að gera um helgina. Hef varla farið útúr húsi, bara þvælst um í náttfötunum á milli þess sem ég legg mig eða fer í heit böð. Hreyfing helgarinnar felst í heilmiklum dansi þar sem maður verður nú að nýta barnlausar helgar líka í smá tjútt, og svo í göngutúr dagsins í nokkuð skemmtilegu veðri.

Ég held ég sé dottin niður á góða uppskrift. Fara út að dansa og hrista sig eins mikið og maður getur. Fara samt snemma heim. Vakna eldhress og dúlla sér heima við lestur. Allavega er ég alveg úthvíld og bíð eftir að prinsinn minn komi heim úr ferðalaginu sínu. Hann er einhvers staðar á leiðinni yfir hellisheiðina ásamt ansi mörgum er ég hrædd um.

En aftur að baðinu. Í gær valdi ég fallega bleika baðkúlu með blómum í og þegar ég skellti henni í baðið breyttist vatnið og varð alveg skærbleikt. Og ég meina sko skærbleikt. Það var óvenjugaman að fara ofan í heitt vatnið svona skemmtilegt á litinn. Ég setti uppáhalds tónlistina á og byrjaði á nýrri bók. Þetta er bók sem ég verð að lesa í hlutum. Ég græt og græt. Bókin heitir "áður en ég dey" og fjallar um dauðvona 16 ára stúlku sem þráir ekkert annað en að upplifa venjulega hluti áður en hún deyr. Þó ég sé ekki komin langt (af því ég verð alltaf að hætta þegar ég sé ekki lengur út) veit ég að ég mun þvælast við að klára hana, enda mjög áhugaverð bók.

Og nú sit ég agndofa yfir plánetunni okkar á meðan ég horfi á heimildarmyndina í sjónvarpinu. Úfff, sláandi mynd alveg hreint.


Limafallssýki

Líffræðingurinn hefur gaman af því að velta fyrir sér lífinu og tilverunni. Við í vinnunni flettum endalaust uppí honum þegar kemur að líffræðilegum vandamálum og komum yfirleit ekki að tómum kofanum. Í morgun sátum við og blöðruðum á meðan við unnum í sitthvoru verkefninu, svona eins og við gerum svo oft. Og eins og venjulega fór umræðan um víðan völl. Og áður en ég vissi af vorum við komin í sjúkdómadeildina, mjög vinsælt umræðuefni. Nema núna vorum við komin að sjúkdóm sem ég þekkti ekki og líffræðingurinn var að velta fyrir sér. Limafallssýki.

Ég kímdi. "En ég er ekki með lim...", sagði ég svo, svona til að sanna það að ég gæti alls ekki verið haldin þessum sjúkdómi. Svo gerði ég athugasemd um að þetta hljómaði eins og veikindi sem ein pilla af Viagra gæti bara kippt í liðinn. Ég meina nafnið er þannig. Limafallssýki. Limur sem fellur niður. Viagra reddar því.

Líffræðingurinn hló innilega og hristi hausinn yfir vitlausa samstarfsfélaga sínum. Sendi mér svo grein til að lesa um limafallssýki, öðru nafni holdsveiki. Frekar andstyggileg veikindi.


Ertu hvað?

"It might not be obvious but I'm gay!"

Ég stóð og starði á hann. "Ha?" Ég stóð enn og starði. Kattadómarinn endurtók setninguna: "It might not be obvious but I'm gay!" Ég reyndi að missa ekki andlitið. Right. Einmitt. Við skulum bara endilega vera með stórar játningar inní miðjum bíósal. Ég og prinsinn höfðum rétt brugðið okkur fram í hléinu á bíómyndinni. Þegar við komum inn í salinn aftur rétt náðum við að heyra kattadómarann fara með þessar játningar við heimalinginn sem sat bara og brosti útaf eyrum.

Þetta voru stórar fréttir. Ég hlammaði mér í stólinn. Enn agndofa. Ég held að þau hafi tekið eftir svipnum á mér. "Not me! Bruno!", sagði kattadómarinn skellihlægjandi. Oh! Auðvitað! Við höfðum horft á brot úr myndinni um Bruno og þetta var einmitt lína þaðan. Vitlaus ég að fatta það ekki. Ég hló líka. Auðvitað var kattadómarinn ekki með svona yfirlýsingar í miðjum bíósal á miðvikudagskvöldi. Og auðvitað er hann bara alls ekki gay... en Bruno.... hann er gay...

Ég og kattadómarinn áttum deit í kvöld. Planið var að sjá action mynd. Ekki alveg að smekk kennarans en ég var sko meira en til í að kíkja aftur í bíó. Drógum prinsinn og heimalinginn með okkur og áttum bráðskemmtilegt kvöld með dinner og öllu. Ótrúlega kúl.

Ekki nóg með það heldur eigum við kattadómarinn aftur deit fljótlega. Sáum auglýsta fína action mynd sem við viljum alls ekki missa af. Jebb. Við erum svona action gaurar :)


Róleg kvöldstund í úthverfinu

Ég átti tiltölulega rólega kvöldstund í kvöld hérna í rólega úthverfinu mínu. Ég er reyndar bara nokkuð heppin að hafa samt ekki komið stórslösuð útúr kvöldinu. Í alvörunni.

Jebb, Rebbý ákvað að nota tækifærið að leggja mig í einelti. Við fórum að kaupa nýjan gaskút og stóðum í þvílíkum dílum með því að skipta mörgum tómum kútum uppí fullan kút. Agalega góðar í business. Ég var bara sæl og ánægð og átti einskis ills von þegar hún tók sig til og stappaði á hægri fætinum á mér. Ég gólaði upp yfir mig en reyndi samt að bera mig mannalega. Ok, kannski stappaði hún ekki á fætinum heldur bara steig óvart afturábak og ofan á mig en alveg sama. Einelti og ekkert annað.

Ég var varla búin að jafna mig á mesta áfallinu þegar hún sló í lærið á mér. Ég harkaði af mér. Ég ætlaði ekki að gráta. Svo fórum við að versla matinn. Eitthvað líkaði henni ekki tillögur mínar að mat svo hún ákvað að halda eineltinu áfram og barði mig svo fast í vinstri öxlina að ég vældi undan henni. Nú var ég bæði hölt og gat varla lyft hendinni.

Ég skipulagði hefndina vel. Stillti Rebbý upp fyrir framan grillið. Lét hana skrúfa á fullu frá gasinu... safnaði því saman í lokið og svo.... Búmm!!! Eldhnöttur skaust úr grillinu og í áttina að Rebbý sem kom sér fimlega undan. Þetta kennir henni að "messa" ekki í mér. Aha!

Svo tók bara við hefðbundið kvöld. Vatnsstríð með grasúðaranum við nágrannann. Byggingarpælingar með sama nágranna. Prinsinn og viðhengið hans skemmtu sér svo konunglega í garðinum við að dansa í vatnsúðanum... Nágrannarnir stóðu hjá og hristu hausinn. Kettir um allt, gólandi rennandi blautir krakkar.

Skrapp svo í óvænta óvissuklippingu til mömmu heimalingsins. Þvílíkt heppin að detta í stólinn hjá henni. Bara til að reyna endanlega að ganga frá Rebbý. Jebb, fyrst nuddaði ég öllum mínum fjórum köttum upp við hana... ja, öllum nema Millie. Millie sá alveg sjálf um að nudda sig upp við hana. En ef það var ekki nóg til að kæfa Rebbý sem þjáist að katta og hundaofnæmi, þá ákvað ég að draga hana með í óvæntu klippinguna. Þar kynnti ég hana fyrir 5 köttum í viðbót og hundi. Jebb... hún er sko búin að læra að abbast ekki uppá mig! Aha!

Nú ný klipping kallar á litun á hári svo ég dreif mig í að lita hárið þegar ég kom heim. Hálfnuð með að bera í mig litinn var dinglað. Ekki heppilegur tími í heimsókn svo ég lét heimalinginn taka skilaboð. Júbb, óvæntur óvissuhúsfundur. Svo ég dreif mig út með litinn í hárinu og tók þátt í húsfundinum sem var við plastborð úti á stétt. "Kemurðu bara með litinn í hárinu?", spurði ein nágrannakonan og hló. Hvað annað á maður að gera þegar það er óvætnur óvissuhúsfundur klukkan ellefu um kvöld og maður er í miðju kafi að gera sig upp? Fer út með litinn í hárinu. Svo stendur maður úti á stétt á meðan nágrannarnir fá sér rauðvínsglas og mælir veggi og vonar að hárliturinn renni ekki alveg útum allt.

Eftir röggsamar ákvarðanir og mælingar á óvænta óvissuhúsfundinum fór ég inn og mælti mér mót við kattadómarann. Við ætlum á Transformers. Aftur. Hér ríkir Transformers æði og því til heiðurs liggjum við nú öll í hrúgu, ég, prinsinn, heimasætan, heimalingurinn og sætukoppur og gónum á Transformers 1. Rólegt kvöld að verða liðið.


Ég er bara ég...

Ég sat fremst á brúninni. Spennt. Alveg að tapa mér. Ég hallaði mér aðeins yfir að næsta sæti. Prinsinn hallaði sér á móti. Við skiptumst á að fá okkur popp úr stóra pokanum sem við fengum okkur saman. Við drifum okkur semsagt í bíó í dag. Transformers. Ekta strákamynd. En ég skemmti mér konunglega. Hasar og húmor. Ekki leiðinlegt að eiga fínan dag með prinsinum mínum.

Ágætis uppbót fyrir daginn í gær sem hvarf á meðan ég lá uppí rúmi og reyndi að láta hausverkinn hverfa. Á meðan tóku heimasætan og sætukoppur stjórnina og fóru útí búð, elduðu og vöskuðu upp og allt. Heimasætan er svo sannarlega spennandi kokkur og galdraði fram bestu hamborgara sem ég hef nokkru sinni smakkað... og sko bjó þá til og allt.

Núna... sofa... og takast á við enn eina vikuna... veiii...


Ég á eftir að verða fræg...

Ég er að segja ykkur það. Ég er misskilinn. Misskilinn snillingur. Og þið kunnið ekki að meta mig. Í alvörunni. Allavega sumir... Ég held að ég eigi einhvern daginn eftir að verða frægur tónsmiður. Ég hef lengi vel æft mig í að útsetja lög, við misjafnar undirtektir heimasætunnar sem stundum skælir á meðan ég syng mínar eigin útgáfur af frægum lögum. Nú er ég farin að færa mig uppá skaftið að semja mín eigin lög. Æfi bút og bút. Og mér finnst að fólk eigi bara að vera þakklátt. Hrósa mér.

En nei. Ég fæ kvartanir á kvartanir ofan. Að ég sé bara að útbúa skrítin hljóð. "Tikkkki tikkki tikkki tikkk ahhhhhhhh ahhhhhhhh" á bara víst eftir að slá í gegn í einhvern daginn og þá verð ég fræg. Rebbý fór hinsvegar yfir strikið í kvöld þegar hún líkti mér við Sigurrós. Sigurrós! Þvílík móðgun! Hver vill hljóma eins og þeir? Mín tónlist er sko mikið flottari. Mikið. En þetta er allt í lagi. Þegar ég er orðin fræg og rík og lögin mín hljóma undir í útvarpinu þegar við kíkjum á rúntinn ætla ég að hnippa í hana Rebbý og segja: "SKO! Ég sagði þér það...."

Skemmtilegast við þetta allt saman er þó að heimasætan er farin að myndast við að útsetja lög líka eins og ég. Stundum vinnum við saman og útsetjum í sameiningu á meðan sætukoppur situr og grettir sig. Segir eitthvað á þá leið að við séum að væla kannski. Og ég verð að segja, hún er mjög efnileg daman. Saman gætum við orðið brjálæðislegt dúó!

Nú er klukkan hinsvegar orðin eitt. Ég ætlaði snemma að sofa. En svo fékk ég frábæra heimsókn frá frábæra stóra bróðir mínum og konunni sem hann veit ekki alveg hver er. Og við prinsinn skelltum okkur svo á rúntinn með Rebbý. Enduðum á að sækja unglingana og skoða Hafnafjörð. Svo náði ég að sinna útkalli í vinnunni rétt fyrir miðnættið á meðan við "brunuðum" niður laugarveginn. Frábært kvöld... og ég skil bara ekki að klukkan sé orðin eitt. Hvað er í gangi hérna?


Vika hinna löngu kvölda...

Veit ekki alveg hvað er í gangi þessa vikuna. Allavega eru kvöldin eitthvað óvenju löng. Og ég meina löng. Og að sama skapi eru næturnar stutta. Mjög merkilegt allt saman.

Fyrir tveimur kvöldum síðan fór ég fyrst að taka virkilega eftir þessu. Kvöldið leið svona svipað og venjulega. En hélt svo bara áfram að líða og líða og líða. Ótrúlega mikið sem ég gat aðhafst. Ekkert að viti auðvitað, frekar en venjulega. Endaði með að planta mér í sófann og gefa mér góðan tíma til að horfa á heila bíómynd. Já, heila! Stóð upp eftir myndina... ætli það væri kominn tími til að halla sér? Fékk nærri áfall þegar ég sá að klukkan var orðin rúmlega þrjú og ég átti að vakna klukkan sjö. Hmmm... dæmi sem gengur ekki alveg upp fyrir manneskju sem þarf sinn svefn sko.

Alveg ákveðin að fara snemma að sofa næsta kvöld eftir langan og erfiðann dag hélt ég inní kvöldið. Húsfundur, barnastúss, tölvuhangs, sjónvarpsgláp. Og allan tíman starði ég á klukkuna. Snemma í bólið, muna það. Svo varð klukkan tíu og ég sannfærði mig um að þrátt fyrir bara 4ja tíma svefn nóttina þar á undan væri allt allt of snemmt að fara í bælið. Kvöldið ungt og ég glaðvakandi. Klukkan varð ellefu og ég þurfti ekki að rökræða lengi við sjálfa mig til að sannfærast um að það væri ekkert sniðugt að fara alveg strax í rúmið. Bíða til hálftólf.. það væri tíminn.

Klukkan hálf tólf hringdi formaður vor alveg óvænt. Hann var líka glaðvakandi og í spjall stuði. Við tvö getum verið alveg ferlegir blaðrarar! Alveg ferlegir! Svo við blöðruðum og blöðruðum um alla heima og geyma. Ég enn alveg með á því að fara snemma að sofa. Jebb, jebb, jebb. En ég var bara svo vakandi og það var svo gaman að hafa einhvern að tala við, einhvern skemmtilegan sko... að áður en við vissum af var klukkan orðin hálfeitt.

Ég lagði á og leit á klukkuna á símanum. Úbbss... er hálf eitt ekki enn snemma? Varð steinhissa við að sjá að mín biðu tvö skilaboð. Greinilega fleir en ég sem hafa löng kvöld og dunda sér þá við að senda sms. Stóri bróðir minn tilkynnti að hann væri á tónleikum með Mosa frænda... how cool is that? Og skrítin skilaboð frá kennaranum sem vildi vita hvort ég væri vakandi.

Auðvitað var ég vakandi. Glaðvakandi. Og fyrr en varði hringdi hún í mig. Ný lent á landinu og læst úti. Úbbasíííí. Við verðum að redda því. Svo ég ákvað að bíða eftir að hún kæmi til að sækja auka lykla til mín. Ekki hægt að hafa kennarann á tröppunum, læstan úti. Ég var hvort sem er ekkert á leið í rúmið. Kvöldið ungt og allt það... löngu hætt að hugsa um hvað væri snemmt og hvað ekki.

Í dag var ég svo harðákveðin! Snemma í rúmið. Ekkert annað kemur til greina. En það átti auðvitað eftir að breytast, enda sit ég hér rúmlega eitt... enn glaðvakandi. Í þetta sinn fékk ég óvænta heimsókn uppúr klukkan tíu. Snjóka birtist allt í einu í stofunni og bauð mér og prinsinum í bíltúr. Við góndum á sólina og fannst eins og klukkan væri bara ekki neitt. Báðar ákveðnar í að fara snemma að sofa. Eftir bíltúrin bauð ég henni inn... gleymdi að bjóða henni veitingar hinsvegar (sorry)... en bauð í staðinn uppá spjall um lífið og tilveruna og tölvubransann.. allt nátengt. Og viti menn. Smá blaður og klukkan er orðin eitt. Hvað er í gangi?

En annað kvöld ætla ég snemma að sofa... for sure...


u - beygja

Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um þetta sumar. Enn sem komið er er það ekki að gefa mér mikið. Og ef þetta fer ekki að breytast verð ég alveg búin á því þegar haustið kemur.

Rúna mín er búin að þurfa að fara tvisvar á verkstæði með tilheyrandi kostnaði í mánuðinum. Síminn er okkar er bilaður. Afleiðingar óknytta prinsins og vina hans halda okkar í helgreipum, við náum ekki að fara í nein ferðalög fyrr en við vitum hversu hár reikningurinn kemur - öllum sumarfríshugleiðingum frestað. Í framhaldinu er ég komin uppá kant við nágrannanna, alltaf gaman að því eða þannig. Prinsinn fékk svo heilahristing, þótt ég væri alveg búin að leggja blátt bann við slíkum uppákomum.

Í dag var ég svo í jarðarför að kveðja vinkonu mína úr kattaheiminum. Konu sem féll frá langt fyrir aldur fram. Það verður bara að viðurkennast að ég á erfitt með jarðarfarir, ég kem einhvern veginn alltaf úrvinda úr þeim. Þreytt og búin á því. Fékk svo áminningu um að lífið heldur áfram þegar ég var boðið á einkahúsfund með stjórn húsfélagasins í kvöld. Eitthvað til að hlakka til eða ekki.

Ég er búin að ákveða að þetta er dagurinn sem sumarið tekur u - beygju og héðan í frá mun allt ganga okkur í hag (maður má vona...).


Af hverju mótmæla?

Eftir fjörugt laugardagskvöld með stelpunum vaknaði ég ótrúlega spræk. Fyrst lá ég smá stund í rúminu og beið eftir að finna fyrir þynnkunni. Á endanum gafst ég upp, andvarpaði og stökk fram úr rúminu. Fyrst ég var ekki þunn var engin ástæða til að hanga í rúminu.

Ég var hins vegar einbeitt í því að hafa rólegan dag. Í því felst að vinna engin húsverk, gera ekkert í garðinum. Slaka bara á. Chilla. Play it cool. Þið náið málinu. Í svona rólegheitum felst aftur á móti að hanga í tölvunni, góna á sjónvarpið, mala í símann (aðalega til að ná sögunum uppúr hinum stelpunum) og hanga með vinum sínum. Og með það í huga drifum við prinsinn okkur í bíltúr með Rebbý seinni partinn.

Talandi um Rebbý og bílinn hennar. Einhverjir muna kannski eftir því þegar ég kenndi henni að stilla klukkuna í bílnum hennar. Núna síðustu helgi var ég að kenna henni alveg nýtt. Ég fékk bílinn lánaðann til að skreppa smá spotta. Hlammaði mér í sætið og stillti sætið. Ég er lágvaxinn og þar af leiðandi kann ég trikkin til að stilla sæti. Svo ég "pumpaði" sætið upp svo ég sæi út. Rebbý var steinhissa þegar hún settist aftur í bílstjórasætið: "Hey, ég sé húddið á bílnum!", skrækti hún. Ég hló og ætlaði ekki að trúa að hún hefði ekki vitað þetta væri hægt. Alltaf gaman að kennar fólki á bílanna þeirra.

En þarna vorum við seinni partinn í dag, í bíltúr. Með prinsinn í aftursætinu. Leið okkar lá í miðbæinn. Prinsinn þekkir nú orðið miðbæinn nokkuð vel og þó aðalega af einni ákveðinni ástæðu. "Mamma, erum við að fara að mótmæla?", heyrðist úr honum í aftursætinu og tónninn í röddinni var nokkuð mæðulegur. "Nei, ástin mín ekki núna...", svaraði ég. Hann þagði smá stund og virtist vera að hugsa. "Mamma eru engin mótmæli núna?" "Nei, ekki akkúrat núna", svaraði ég, eins þolinmóð og ég gat verið. "Mamma... fær maður peninga við að mótmæla?", hélt hann áfram að spyrja. "Nei", svaraði ég og hélt svo áfram: "maður fær ekki peninga fyrir að mótmæla" "Afhverju þá mótmæla?", spurningarnar virtust aldrei ætla að enda. Ég gerði mitt besta til að útskýra á einfaldan hátt af hverju fólk mótmælti á virkan hátt. Endaði á að segja: "Ef maður er ekki ánægður mótmælir maður!". Nokkuð ánægð með mig að hafa náð að koma þessu á framfæri.

Prinsinn þagði augnablik og sagði svo: "Mamma, af hverju verðuru þá ekki bara alltaf ánægð... þá þarftu ekki að mótmæla!" Einfalt, ekki satt?


Það er fótur í mér... og ég er með fótasósu í maganum!

Í kvöld er ég búin að brjóta nokkrar grundvallarreglur. Ein af þeim er að blogga þegar ég kem heim af "djamminu". Það er alveg bannað. Sérstaklega þegar er fótur í mér. Ég hef nefnilega ekki góða reynslu af því að blogga þegar hausinn er ekki alveg sprækur. Aha. Svo eftir síðasta skipti... þegar ég bloggaði og skyldi eftir eitthvað sem leit út eins og sjálfvígsbréf... allavega kveðjubréf til heimsins setti ég mér þá reglu að blogga ekki eftir að hafa smakkað áfengi. Þá reglu er ég að brjóta núna.

Ég á líka aðra reglu, sem líka snertir áfengi. "Hey! Vilma má ekki drekka eftir miðnæti.. þá breytist hún í FROSK!", sagði Snjóka höstum tón við nagladömuna sem gerði sig líklega til að gefa mér sopa að bjórnum sínum. Ég hló og tók sopa. Til hvers eru reglur nema til að brjóta þær? Enda átti ég eftir að brjóta þessa "Ekki drekka áfengi eftir miðnæti" reglu mína aftur áður en ég fór heim. En bara ti að bjarga vinkonum mínum. Jebb, ég fórna mér fyrir hópinn.

Í kvöld var nefnilega stelpukvöld hjá kisustelpunum. Við hittumst snemma og erum búin að vera lengi að. Við erum búnar að hlægja... og hlægja og hlægja. Það er eitt sem hægt er að bóka í þessum hóp. Það hlegið. Það er hlegið hátt og innilega. Aðalega hlægjum við að hverri annari. Í þessum hóp þýðir ekkert að vera hörundssár. Neibb. Hér er allt dregið fram í dagsljósið og notað í brandara.

Svo eftir góða máltíð, heilmikið mas, enn meiri hlátur, dans, er ég komin heim... þreytt en sæl.

(Fótur í mér = drukkin)
(fótasósa = það er fótur í sósunni = þetta er þokkalega sterk sósa)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband