Hvar eru börnin? Og hvar eru kindurnar?

"Hæ Vilma, hvernig er Akureyri?", spurði hljómþýð rödd ráðgjafans mig í símanum. "Uhhh.. örugglega fínn á Akureyri", svaraði ég og hélt svo áfram: "En ég er sko í Grindavík..." Það kom þögn í smá stund. Svo flissaði ráðgjafinn og bauðst til að lána mér kort... ekki veitti af fyrst ég villtist af leiðinni til Akureyrar yfir til Grindavíkur.

Í dag fórum við Rebbý í Road trip. Svona bara mini ferðalag. Að skoða okkur um. Sýna okkur. Lögðum snemma af stað og héldum í rigningunni útá Suðurnes. í staðinn fyrir að fara til Akureyrar eins og plönin voru, breyttum við ferðinni í Road trip. Með dillandi tónlist, stanslaust blaður og skríkjandi héldum við áfram. Þvílíkt gaman. Markmiðið var að skoða Suðurnesin og þá sérstaklega bæjarfélögin þar í dag. Kíka við.

Á Vatnsleysuströnd fann Rebbý krúttulega kirkju og ég kom auga á "húsið mitt"... svona hús í kastalastíl, held að Sverrir Stormsker hafi byggt það. Sel það þó ekki dýrara en ég keypti það. Síðan þræddum við bæjarfélögin eitt af öðru.

Höfðum smá áhyggjur af því að þurfa að leggja bílnum ólöglega í Reykjanesbæ þegar við stukkum inní dýrindis kjúklingasalat. Þær áhyggjur þurrkuðust út á augabragði þegar löggan á staðnum mætti og lagði enn meira ólöglega fyrir framan okkur. Hjúkk. Undir ærandi brunabjöllu skófluðum við í okkur gómsæta salatinu. Mitt var þó mun betra en Rebbýar þar sem ég náði að stela öllum ólívunum hennar. Namm namm.... eftir brunabjöllusöngl og lögguskoðun drifum við okkur áfram.

Ég skil ekki ennþá hvernig Rebbý tókst á endanum að finna "grátt hús með engum húsum í kring"... en eftir að við fundum það var það endalaust að þvælast fyrir okkur. Ferlega fínt grátt hús samt. Og örugglega mjög nytsamlegt. Eftir að hafa leitað að því í miðbæ Keflavíkur fannst það á leiðinni útí Garð. En allavega. Það fannst. Gleymdum að taka mynd af húsinu.

Garður var nú ekki að slá í gegn. Við skoðuðum okkur um. En einhvern veginn var þetta bara ekki alveg að gera sig. Stutt könnun skilaði því að Vogar væru nú mun krúttlegri. Vitarnir við Garð slógu hinsvegar í gegn og nýja áhugamálið verður að horfa á vita. Svo miklar dúllur eitthvað. Eða þannig sko.

Á Keilissvæðinu tókst okkur að villast. Í alvörunni. Við vorum orðnar örvæntingarfullar um að komast nokkru sinni út aftur. Keyrðum og keyrðum og keyrðum en komum alls staðar að lokuðum götum. Vorum alvarlega farnar að hugsa um að spyrja til vegar þegar við römbuðum útá Reykjanesbraut. Hjúkk.

Við komuna á Hafnir var skilti sem sagði að börn væru að leik. Við skimuðum í allar áttir. Engin börn. Úbbasíííí. Ættum við að hringja á lögguna? Hvar voru börnin? Í leit að börnunum héldum við sem leið lá til Grindavíkur. Með viðkomu að skoða vita auðvitað. Og líka til að gá hvort börnin væru nokkuð þar.

Grindavík er sigurvegari dagsins. Eftir að hafa skoðað nærri öll hús á Suðurnesjunum, stimpluðum við Grindavík sem vinningshafa, flottasta bæjarfélagið. For sure. Skoða og skoða og taka myndir. Allt sem túristar eiga að gera. Við erum fyrirmyndartúristar.

Krýsuvíkurleiðin átti svo að skila okkur á suðurlandið. Skilti sem sagði að þarna væru kindur og lömb vakti athygli okkar. Enga kind að sjá. Ekki kílómetrum saman. Hvar voru kindurnar og lömbin? Á sama stað og týndu börnin? Við náðum nú aldrei að komast til botns í því. En á endanum komumst við á suðurland þar sem við rannsökuðum Þorlákshöfn, Eyrarbakka, Stokkseyri og Selfoss. Hveragerði sleppt af þessu sinni. Þykist hafa séð það pleis einu sinni eða tvisvar áður. Enduðum daginn með frábærum mat á Horninu... fiskur í engifersósu, þetta verður bara ekki betra sko...

Við erum sko þokkalega ánægðar með árangur dagsins. Fullt af nýjum stöðum. Fullt af nýjum hlutum að skoða. Fullt af myndum. Stundum þarf maður bara ekki að fara langt til að upplifa smá part af landinu sínu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Selfoss og ekki komið til mín? Mér er ööööörlítið misboðið......

Annars eru Hafnir sigurvegarar hvers dags í mínum bíltúrum um Reykjanesið. Frábær staður - en ég er sammála þér um vitana enda verið áhugamanneskja um vita í mörg ár!

Hrönn Sigurðardóttir, 25.8.2009 kl. 23:37

2 Smámynd: Rebbý

já þetta var með eindæmum skemmtilegt örferðalag en ég get eiginlega ekki rétt úr mér lengur eftir alla þessa keyrslu
tökum næsta Road trip með meira viti og Hrönn mín ... biðst afsökunar á að hafa ekki kíkt við en ég sá ekkert annað en RVK þegar við komumst inn á Selfoss enda búnar að vera á flakkinu í 10 tíma

Rebbý, 25.8.2009 kl. 23:39

3 Smámynd: Vilma Kristín

Sorrý Hrönn! Næst stoppum við... þegar við komum á Selfoss vorum við bara eiginlega næstum komnar á hraðferð... gefum okkur góðan tíma í kaffibolla þar næst :)

Vilma Kristín , 25.8.2009 kl. 23:39

4 Smámynd: Vilma Kristín

Rebbý... við og Road trip með viti? Ha, ha, ha... er það nú ekki hámark bjartsýninnar? Við og eitthvað með viti?

En næsta Road trip verður samt austur á bóginn? Fljótshlíð er það ekki?

Vilma Kristín , 25.8.2009 kl. 23:41

5 Smámynd: Rebbý

SKO VILMA  við getum alveg gert eitthvað af viti ef við ætlum okkur það .. spurning bara hvort það væri nokkuð eins gaman
Fljótshlíðin að skoða landnámshænsni eða kannski bara fara aðeins vestur ... ekki alltaf horfa í sömu áttina sko

Rebbý, 25.8.2009 kl. 23:53

6 identicon

Sé að það er satt sem þú sagðir mér í tölvupóstinum , þú mjög duglega að vera í fríi :-)

Ef þið villist til Akureyrar þegar þið ætlið að fara að skoða Grindarvík þá kíkið þið í kaffi, á líka ágætis gestaherbergi (það er sko aðeins lengra til Akureyrar en Grindavíkur) ;-)

Elín (IP-tala skráð) 26.8.2009 kl. 09:10

7 Smámynd: Einar Indriðason

Hvað er þetta..  "með viti" er bara eintalan af "með vitum" ... og voruð þið ekki að skoða vita (í fleirtölu?)  Málið leyst!

Einar Indriðason, 28.8.2009 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband