Færsluflokkur: Bloggar

Úbbbsss...

Loksins búið að byggja nýja fína litla bílastæðishúsið. Búið að ganga frá öllu. Búið að snurfusa. Setja handrið og ljós, gera allt sem þarf að gera. Meira að segja setja upp fín slá sem hægt er að ýta upp og draga niður. Glæsilegt alveg.

Eina sem vantaði voru vegamerkingar við innkeyrsluna. Þið vitið, svona örvar inn og út... Svo allir viti nú hvernig á að keyra inní bílastæðishúsið og hvernig á að komast úr því. Það segir sig sjálft að það þarf að mála allskonar merkingar svo allir rati og enginn geri vitleysu. En hvenær á að mála svona fínerí þegar allan daginn streyma bílar inn og útúr bílastæðishúsinu? Hvenær?

Jú, á kvöldin! Þegar allir eru hættir að vinna. Þegar enginn er að nota húsið. Svo mættu krúttlegu litlu tveir málarstrákarnir með mótin sín, málningu og allt. Tilbúnir í verkið. Þeir dunduðu sér dágóða stund. Mála beina ör. Mála beygjuör. Mála örvar inn. Mála örvar út. Fullt fullt af sætum hvítum örvum. Krúttlegu litlu málarastrákanir voru svo ánægðir með verkið. Stóðu og horfðu á það, dáðust að því.

Þið getið því ímyndað ykkur hversu hissa þeir urðu þegar skyndilega brunuðu tveir bílar niður rampinn að útkeyrslunni. Nei! Hér áttu ekki að vera bílar! Nei! Málningin var blaut. Þeir stukku í veg fyrir bílana til að afstýra stórslysi. Náðu að stöðva bílana tvo í tíma.

Þið getið kannski líka ímyndað ykkur hversu hissa við, ég og eyjamaðurinn, vorum þegar tveir málarar hoppuðu í veg fyrir bílana okkar. Við sem í sakleysi okkar ætluðum heim eftir tæplega 16 tíma vinnudaginn. Það hafði enginn sagt okkur að það ætti að færa alla bíla... enda við ekki starfsmenn fyrirtækisins sem á nýja fína bílastæðahúsið.

Nú tók við mikil nákvæmisvinna. Eyjamaðurinn var í fremmri bílnum. Ég sat róleg og horfði á aðfarirnar. Þar sem hann skakaði bílnum fram og aftur. Fram og aftur. Undir styrkri stjórn málaranna. Varlega yfir örvarnar án þess að snerta þær. Ekkert mátti útaf bera.

Ég fann spennuna aukast. Ég væri næst. Úffff. hvernig ætlaði ég að komast yfir beygjuörina án þess að keyra yfir hana? Sæti litli málaradrengurinn kom uppað bílnum og spjallaði smá. Fullvissaði mig um að hann myndi hjálpa mér. Hann myndi leiðbeina mér. Ég lagði varlega af stað. Smá áfram. Smá bakka. Smá beygja. Smá áfram. Smá bakka. Eftir það sem mér fannst vera ógnarlangur tími tókst mér að komast klakklaust yfir hindrunina og brunaði heim á leið.

Ef málararnir hefðu bara vitað hversu þreytt við vorum, andlega og líkamlega, hefðu þeir aldrei lagt í að reyna að láta okkur bögglast þetta. En við erum auðvitað ekkert nema snillingar. Og þegar ég mæti í fyrramálið í fyrirtækið ætla ég að njóta þess að keyra þvert yfir allar merkingar við bílastæðahúsið.


ToDay() eftir miðnætti er ToMorrow..

Tveir úrvinda forritarar á sykurtrippi. Ekki góð samsetning.

Gangsetning. Ég og Eyjamaðurinn tökum þetta saman, kannski ekki með vinstri og við erum ekki enn búin að læra hvenær á að fara heim að sofa. Núna eru 5 tíma í að ég eigi að mæta aftur. Bara aðeins að hlaða batteríið í símanum og líka setjast niður og hlaða mín batterí, reikna með að dreyma bara vinnuna.

Við erum óskaplega heppin að vera að gangsetja í frábæru fyrirtæki með stórskemmtilegu fólki. Þeim finnst við stundum dálítið skrítin samt. "Jahá... er gaman þarna í horninu?", kallaði vöruhúsastjórinn til okkar um miðnættið þar sem við veltumst um af hlátri yfir eigin bröndurum. Við kinkuðum kolli og reyndum að hætta að flissa. Það dugði ekki lengi. Sérstaklega ekki þegar búið var að bera í okkur meira súkkulaði í þeirri von að við fengjum orku í eins og tvo klukkutíma í tölvuvinnu í viðbót. Það virkaði. Hversu gáfuleg við vorum... það er annað mál.

En núna... lúlla... fara svo aftur að vinna, vonandi ekki meira en 16 tímar á morgun.


Ég fer á stefnumót

Ótrúlegur dagur í dag. Ég fór á... haldið ykkur fast... ekki eitt... heldur tvö stefnumót. Bæði með dökkhærðum mönnum. Svona algjör draumadagur eiginlega.

"Vilma, hvað ertu að gera í hádeginu?", spurði kunnugleg rödd mig í símanum klukkan hálf tólf. Ég brosti. Þegar þessi maður hringir í mig er venjulega eitthvað spennandi og skemmtilegt framundan. Svo ég setti mig í stellingar, flissaði og svaraði: "Ég veit það ekki. Hvað er ég að gera?". Og áður en tvær mínútur voru liðnar vorum við búin að skipuleggja þetta fína óvænta hádegisdate. Matur og skemmtun. Hversu mikið betra getur það verið? Hávaxni dökkhærði maðurinn sótti mig í vinnuna. Við blöðruðum og hlógum, eftir gómsætan matinn skelltum við okkur á opnum á nýjum bar þar sem við hittum skemmtilegt fólk og brögðuðum á gómsætum veigum. Hversu mikið betra getur lífið verið í hádeginu á föstudegi.

Ég var sæl og ánægð með daginn. Þegar síminn minn hringdi seinnipartinn varð ég alveg steinhissa að heyra í suðræna dökkhærða manninum á hinum endanum. Smá athugun með barnapössun og praktísk atriði og áður en ég vissi af var ég bókuð á spennandi date um kvöldið.

Við komum okkur fyrir í myrkvuðum bíósalnum og gjóuðum augunum hvert á annað. Á meðan við biðum eftir að myndin byrjaði blöðruðum við og blöðruðum. Okkur semur voðalega vel og eigum ekki í vandræðum með að láta samræðurnar flæða. Við biðum spennt eftir myndinni og deildum stórum popp poka og stórum gosdrykk með tveimur rörum. Ég kvaddi hann með trega eftir myndina og hélt ein heim á leið. Hversu mikið betra getur lífið verið að kvöldi til á föstudegi.

Þessi date hefðu þó getað verið mikið meira spennandi ef mennirnir hefðu ekki báðir verið lofaðir. Annar hamingjusamlega giftur og búinn að vera einn minn besti vinur í yfir 10 ár. Hinn hamingjusamlega í sambúið með einni bestu vinkonu minni, og búinn að vera einn minn besti vinur síðustu árin.

Hádegisdeitið hefði líka getað verið meira spennandi ef við hefðum ekki borðað saman í mötuneytinu í vinnunni minni og ef barinn hefði verið einhver framandi og seiðandi bar en ekki innanhús bar hjá vinum okkar og viðskiptavinum... heimsókninni fylgdi skemmtileg skoðunarferð um vöruhús og skrifstofur. Og ég fékk að eyða dýrmætum tíma með vininum mínum.

Bíódateið hefði líka kannski verið meira frásögu færandi ef ástæðan fyrir því að við fórum tvö í bíó er að enginn annar vill sjá myndina sem við fórum á. Við, ég og kattadómarinn, erum hins vegar alsæl með að hafa fundið félaga á ýktar og innantómar actionmyndir.

Heppin ég samt að eiga svona margar skemmtilega vini, bæði stráka og stelpur :) sem gera lífið mitt fullt af óvæntum uppákomum... og núna held ég á næsta deit... í þetta sinn með stelpu reyndar...


Af berum botnum...

"Mamma! OJJJJJJJ!!!! Þetta er alsber rass....", æpti hneykslaður prinsinn. Ég leit á hann. Hann stóð gapandi og gretti sig og benti á dagatalið uppá vegg. "Mamma! Rass!", skrækti hann áfram. Ég kímdi. Ég hafði greinilega hneykslað unga manninn. Kannski var ég búin að valda honum sálfrænu tjóni með því að bera beran karlmannsrass.

Þegar ég mætti í vinnuna í morgun eftir síðustu sumarfrísdagana hékk forláta dagatal uppá vegg hjá mér. Búið var að líma gulan "post-it" miða yfir botnin á stæltum berum karlmanni. Ég tísti og tók "post-it" miðann af á meðan líffræðingurinn fylgdist með úr sætinu sínu.

Ég var bara nokkuð sæl með þennan óvænta glaðning og sat dágóða stund og virti fyrir mér myndina sem prýðir ágúst mánuð. Þessi voða fíni hokkí spilari... án klæða. Mig grunaði nú hvaðan þetta hafði komið en ákvað að njóta þess bara þar til réttur eigandi kæmi að sækja það.

Líffræðingurinn er búinn að nöldra í allan daq yfir þessu. "Ég ætla að fá mér svona verkstæðisdagatal... með konum á...", segir hann með hótandi tón. Ég yppti öxlum. Það snertir mig ekki neitt. Mér er bara alveg sama um berar konur. "Þú ert með tvö dagatöl...", heldur líffræðingurinn áfram og bendi á hokkídagatalið og gámafélagsdagatalið. Ég bendi honum á að mennirnir á gámafélagsdagatalinu séu nú í fötum og ég eigi bara ekkert í hokkídagatalinu þó að það sé þarna.

"Finns þér þetta ógnandi?", spyr ég og flissa, dagatalið er svo sannarlega að fara í taugarnar á honum. Hann þykist vera hneykslaður. Nei, honum er sko ekki ógnað af velmótuðum berum botni. Formaðurinn skaust aðeins inn til okkar og ég bar á hann að vera eigandi hins umdeilda dagatals. Hann hló og jánkaði. Axaptagúrúinn hafði víst verið eitthvað ósáttur við að hafa ágústmánuð uppi svo niðurstaðan var að hengja hann þar sem einhver myndi njóta hans. Og akkúrat núna væri ég bara til í að ágúst væri aðeins lengri...


Húbert!

Ég er loksins búin að ná þessu. Loksins. Held ég. Jebb. Sumarfrí númer tvö. Nú er ég búin að vera í 11 daga í fríi. Og ég hef bara farið í vinnuna þrisvar. Og talað við vinnuna í síma fjóra aðra daga. En í fjóra daga hvorki fór ég í vinnuna né talaði við einhvern þar í síma. Frábær árangur.

Á þessum tíma fór ég í viku í sumarbústað. Fjörug og skemmtileg ferð. Með heimasætunni, prinsinum, sætukoppi og Rebbý. Svo var heimalingurinn hjá okkur í nokkra daga. Og MaggaBidda kíkti við í sólarhring... eftirminnilegan.

Heiti potturinn var notaður nær stanslaust. Grillið var besti vinur okkar. Að auki gátum við týnd gómsæt bláber. Sofið út. Hlegið. Og ég veit ekki hvað.

Það var eitt sem ég lærði þó í þessari ferð. Það snýr að börnunum mínum. Einn daginn sendi ég þau ein af stað. Í dýragarðinn í Slakka. Kát og hress hoppuðu þau uppí bíl og sætukoppur keyrði varlega af stað, enda með dýrmætan farangur.

Dagurinn var fljótur að líða, ég notaði hann til að sofa aðeins meira. Hvíla. Hlusta á þögnina. Svo kom áfallið. Já, ég lærði það af þessu að maður sendir ekki börn ein í dýragarð þar sem má taka dýrin með sér heim! Einmitt! Getið ímyndað ykkur hvað gerðist.

Ég reyndi að horfa á jákvæðu hliðina. Þau hefðu getað komið heim með hund... svín... kálf... en í staðinn var það bara Húbert sem flutti inn til okkar. Elsku hjarans Húbert. Húbert er krúttlegasta kanína í heimi. Ekkert minna. Hann skoppar hér um öll gólf núna og lætur eins og hann eigi heiminn. Um leið og búrið er opnað stekkur hann af stað og skvettir til bossanum. Kettirnir standa og stara forviða á kvikyndið. Hvað er þetta?

Skemmtilegasta sem Húbert veit er að hlaupa í gegnum rör. Við setjum hann niður og horfum á hann skjótast í gegn, svo stoltur þegar hann skýtur út hausnum hinu meginn. Heimtar klapp og mænir á mann. Hann fær endalausa athygli hjá okkur, köttunum og gestum og verður án vafa ofdekraðasta kanína í heimi áður en við vitum af... en þá fer ég bara aftur með hann í dýragarðinn og segi að það hafi orðið smá misskilningur... Eða ætli dýragarðurinn taki ekki við dýrum aftur.


Hvar eru börnin? Og hvar eru kindurnar?

"Hæ Vilma, hvernig er Akureyri?", spurði hljómþýð rödd ráðgjafans mig í símanum. "Uhhh.. örugglega fínn á Akureyri", svaraði ég og hélt svo áfram: "En ég er sko í Grindavík..." Það kom þögn í smá stund. Svo flissaði ráðgjafinn og bauðst til að lána mér kort... ekki veitti af fyrst ég villtist af leiðinni til Akureyrar yfir til Grindavíkur.

Í dag fórum við Rebbý í Road trip. Svona bara mini ferðalag. Að skoða okkur um. Sýna okkur. Lögðum snemma af stað og héldum í rigningunni útá Suðurnes. í staðinn fyrir að fara til Akureyrar eins og plönin voru, breyttum við ferðinni í Road trip. Með dillandi tónlist, stanslaust blaður og skríkjandi héldum við áfram. Þvílíkt gaman. Markmiðið var að skoða Suðurnesin og þá sérstaklega bæjarfélögin þar í dag. Kíka við.

Á Vatnsleysuströnd fann Rebbý krúttulega kirkju og ég kom auga á "húsið mitt"... svona hús í kastalastíl, held að Sverrir Stormsker hafi byggt það. Sel það þó ekki dýrara en ég keypti það. Síðan þræddum við bæjarfélögin eitt af öðru.

Höfðum smá áhyggjur af því að þurfa að leggja bílnum ólöglega í Reykjanesbæ þegar við stukkum inní dýrindis kjúklingasalat. Þær áhyggjur þurrkuðust út á augabragði þegar löggan á staðnum mætti og lagði enn meira ólöglega fyrir framan okkur. Hjúkk. Undir ærandi brunabjöllu skófluðum við í okkur gómsæta salatinu. Mitt var þó mun betra en Rebbýar þar sem ég náði að stela öllum ólívunum hennar. Namm namm.... eftir brunabjöllusöngl og lögguskoðun drifum við okkur áfram.

Ég skil ekki ennþá hvernig Rebbý tókst á endanum að finna "grátt hús með engum húsum í kring"... en eftir að við fundum það var það endalaust að þvælast fyrir okkur. Ferlega fínt grátt hús samt. Og örugglega mjög nytsamlegt. Eftir að hafa leitað að því í miðbæ Keflavíkur fannst það á leiðinni útí Garð. En allavega. Það fannst. Gleymdum að taka mynd af húsinu.

Garður var nú ekki að slá í gegn. Við skoðuðum okkur um. En einhvern veginn var þetta bara ekki alveg að gera sig. Stutt könnun skilaði því að Vogar væru nú mun krúttlegri. Vitarnir við Garð slógu hinsvegar í gegn og nýja áhugamálið verður að horfa á vita. Svo miklar dúllur eitthvað. Eða þannig sko.

Á Keilissvæðinu tókst okkur að villast. Í alvörunni. Við vorum orðnar örvæntingarfullar um að komast nokkru sinni út aftur. Keyrðum og keyrðum og keyrðum en komum alls staðar að lokuðum götum. Vorum alvarlega farnar að hugsa um að spyrja til vegar þegar við römbuðum útá Reykjanesbraut. Hjúkk.

Við komuna á Hafnir var skilti sem sagði að börn væru að leik. Við skimuðum í allar áttir. Engin börn. Úbbasíííí. Ættum við að hringja á lögguna? Hvar voru börnin? Í leit að börnunum héldum við sem leið lá til Grindavíkur. Með viðkomu að skoða vita auðvitað. Og líka til að gá hvort börnin væru nokkuð þar.

Grindavík er sigurvegari dagsins. Eftir að hafa skoðað nærri öll hús á Suðurnesjunum, stimpluðum við Grindavík sem vinningshafa, flottasta bæjarfélagið. For sure. Skoða og skoða og taka myndir. Allt sem túristar eiga að gera. Við erum fyrirmyndartúristar.

Krýsuvíkurleiðin átti svo að skila okkur á suðurlandið. Skilti sem sagði að þarna væru kindur og lömb vakti athygli okkar. Enga kind að sjá. Ekki kílómetrum saman. Hvar voru kindurnar og lömbin? Á sama stað og týndu börnin? Við náðum nú aldrei að komast til botns í því. En á endanum komumst við á suðurland þar sem við rannsökuðum Þorlákshöfn, Eyrarbakka, Stokkseyri og Selfoss. Hveragerði sleppt af þessu sinni. Þykist hafa séð það pleis einu sinni eða tvisvar áður. Enduðum daginn með frábærum mat á Horninu... fiskur í engifersósu, þetta verður bara ekki betra sko...

Við erum sko þokkalega ánægðar með árangur dagsins. Fullt af nýjum stöðum. Fullt af nýjum hlutum að skoða. Fullt af myndum. Stundum þarf maður bara ekki að fara langt til að upplifa smá part af landinu sínu.


Áttu egg?

Ég fann kaldan svita renna niður hálsinn aftanverðan og leit flóttalega í kringum mig. Ég reyndi að ná stjórn á andadrættinum. Anda rólega. Enga vitleysu. Svo leit ég á ungmennin. Heimasætan hafði dregið sig saman í kuðung og ég sá bara rétt í augun. Sætukoppur var óttasleginn á svipinn og skimaði í kringum sig. "Mér finnst eins og það sé einhver fyrir aftan mig....", hvíslaði hann og leit hræddur um öxl.

Ég kingdi munnvatninu og rýndi á skjólvegginn. Reyndi að hlusta. Var einhver þar? Var einhver að læðast um í runnunum. "Verst að útaf ljósinu sjáum við ekkert utan pallsins", hélt sætukoppur áfram. Ég kinkaði kolli. Heimasætan sat enn í kuðung. Ég rýndi út yfir pallinn. Við sáum mjög takmarkað útí myrkrið. Hvað leynist í myrkrinu?

Ég hallaði mér betur niður í pottinn. Reyndi að láta hitann í heita pottinum verma mig upp. Reyna að láta heita vatnið ná úr mér hrollinum. Heimasætan bara rétt stakk upp nefinu og augunum. Sætukoppur snéri höfðinu í sífellu, rýndi útí myrkrið. Í leit að þeim. Í leit að vondu körlunum.

Ég get sagt ykkur það að það er ekki góð hugmynd að velja myndir til að horfa á af handahófi. "F 3", sagði ég hátt og skýrt þegar ég og Rebbý ákváðum að kíka á eins og eina bíómynd, rólegan dag í sumarbústaðnum. Semsagt þriðja myndin sem byrjaði á F. Ekkert mál. Nema... myndin reyndist vera hryllingsmynd. Og eins og það sé ekki nóg... þá gerist hún í sumarhúsi. Great!

Ég með mitt ofvikra ímyndunarafl má alls ekki horfa á svona myndir. Svo ég lét mér nægja fyrsti hálftíminn og síðustu fimmtán mínúturnar. Náði samt því miður of miklu. Ég skrapp útí göngu yfir miðkaflann. Akkúrat þegar unglingarnir komu heim og tóku við mér við gónið. Þau náðu því helling af hrylling. Að horfa á hryllingsmynd um miðjan dag er kannski ekkert mál.

Það er hinsvegar öllu verra þegar sætukoppur fer að rifja hana upp í myrkrinu í heita pottinum um nóttina. Áður en við vissum af vorum við þrjú orðin hálftryllt af hræðslu. "Áttu egg?", sagði ég og svo flissuðum við taugaveiklað og rýndum útí myrkrið. Enda spiluðu egg stóra rullu í hryllingsmyndinni. Eftir að hafa talað í mig kjak hoppaði ég uppúr pottinum og skoppaði inní sturtu. Læsti að mér. Hjúkk. Allavega komin inní hús.

Rebbý stóð hin rólegasta inní stofu. Hafði ekki hugmynd um hvað við vorum búin að spinna uppí pottinum. Klædd í hvít föt, eins og morðingjarnir í hryllingsmyndinni, ákvað hún að henta sér út og byrja tiltekina við pottinn. Skelkaðir unglingarnir sátu stjarfir í pottinum og biðu eftir að hægt væri að komast í sturtu. Var þetta eðlilegt hljóð sem heyrðist? Var einhver að læðast um?

Skyndilega birtist hvít vera útúr myrkrinu. Hvít vera sem stefndi á þau. Þau voru of skelfd til að geta öskrað... Engin egg hér... engin egg hér... og Rebbý nærri kafnaði úr hlátri standandi í hvítu fötunum sínum á pallinum. Já, öflugt ímyndungarafl og hópefli getur komið af stað ansi skemmtilegum hlutum.


Örugg framtíð

"Þegar ég er orðinn stór ætla ég að eiga byssu...", gasprar prinsinn úr aftursætinu. Svo heldur hann frjálslega og langa ræðu hvernig hann myndi þvælast um fjöll með byssuna sína. Allt til að bjarga mömmu. Já, drengurinn ætlar að leggjast í veiði. Veiða fugla í matinn fyrir mömmu sína. Hann endar ræðuna sína: "Ég ætla bara að skjóta fugla í matinn og sjá um okkur".

Mamman tárast yfir umhyggju og fyrirhyggju uppáhalds sonarins. Þvílíkur gæðingur. Alltaf að hugsa um mömmuna sína. Og systir. Jebb. Hann ætlar líka að veiða fugla í matinn fyrir systir sína. Enginn í fjölskyldunni má svelta.

"En viltu ekki eiga veiðistöng líka?", spurði ég og hélt áfram: "Þá geturðu veitt fisk í matinn líka". Prinsinn grípur þetta á lofti. Hann byrjaði að spá í hvaða hann gæri veitt með veiðistönginni. "Kannski get ég veitt háharl...", skríkti hann á meðan við héldum inní búðina til að versla okkur eitthvað í matinn.

Væri ekki munur ef ég hefði bara getið opnað ísskápin teygt mig inn og gripið annað hvort gæs eða hákarlaugga til að hafa matinn? Það sem ég hlakka til að drengurinn stækki svo ég þurfi aldrei aftur að hafa áhyggjur af mat...


Algjörlega óþolandi!

Ég komst að niðurstöðu í dag, eða sko ég og nakti forritarinn komumst saman að niðurstöðu. Hún er svona: Líffræðingurinn er óþolandi! Algjörlega óþolandi! Um þetta erum við, ég og sá nakti, sammála. Komumst að þessu eftir svona nokkra tíma maraþon skype samtal. Og það besta við þetta er að líffræðingurinn er sammála okkur.

Kannski kemur það einhverjum á óvart að ég sé sátt við að sessunautuinn sé óþolandi. Sessunauturinn sem ég umgengst daginn út og daginn inn. En þetta er nefnilega jákvætt. Mjög jákvætt nefnilega. Það getur verið alveg frábært að vera óþolandi! Svona svipað eins og að það er jákvætt að vera kúkalabbi...

Sko, við vorum eitthvað að spá í hvort það væri verið að hertaka Ísland þegar ég og líffræðingurinn sáum reyk í fjarska. Þarna gætu hæglega erlendar hersveitir verið mættar að hertaka landið. Og hvort væri nú betra að vera hertekinn af rússum eða bretum. Þetta eru mikilvægar spurningar og gott að vera kominn með afstöðu. Líffræðingurinn vildi fá rússana en ég vildi fá bretana.

Litskrúðugar lýsingar líffræðingsins á því hvernig rússarnir myndu ganga um götur bæjarins með ótuktarskap og drápum lífguðu svo sannarlega uppá daginn sem hafði verið frekar strembinn. Mér leist þó ekkert á þessi dráp sem myndu fylgja þessu og á meðan ég og sá nakti veltum fyrir okkur hvort við vildum láta misþyrma okkur eða drepa kvaðst líffræðingurinn ekki þurfa að taka ákvörðun í því máli. Af hverju ekki? Það var sko einfalt. Hann er nefnilega framkvæmdamaður... svona "do" - er... Á meðan ég og nakti forritarinn erum þolendur sem látum allt yfir okkur ganga er líffræðingurinn óþolandi... sem sagt allt annað en þolandi.

Nú er spurning hvort ég fari ekki að vinna í því að verða óþolandi líka svo ég verði tilbúin þegar Ísland verður hertekið!


Hátíð ljónanna

Við svifum um gólfið, alveg eins og við hefðum aldrei gert neitt annað.  Hæfileikarnir alveg á útopnu.  Eða þannig.  Við vorum allavega sannfærð akkúrat þá stundina að við værum hin glæsilegustu.  Ég og Sævar, stóri bróðir, sem ég hafði gabbað út á "dansgólfið".  Ef það á að draga saman ljónapartý ársins í eitt orð væri það "dans".  Það var sko mikið dansað.  Mikið.  Túlkað með dansi. Sungið og dansað.  Allir að dansa saman.  Ein að dansa.  

Ég hélt einstaklega velheppnað hópnámskeið í fiskadansinum.  Svei mér þá ef þetta var ekki einstaklega hæfileikaríkur hópur sem sótti ljónapartýið þetta árið.  Í framhaldi af fiskadansinum reyndum við okkur aðeins við ljónadansinn.  Lærðum nautadansinn af Olgu og Ingu.  Byrjuðum að semja Bogmannadansinn, Vatnsberadansinn, Meyjudansinn.  Jebb, eftir nokkur ár verðum við komin með fullmótaðan dans fyrir öll stjörnumerkin.  

Um helgina var sem sagt haldið hið árlega ljónapartý.  Einu sinni á ári tökum við aðal ljónin, ég og Magga Bidda, af skarið og höldum hátíð til heiðurs okkur og öðrum ljónum.  Söfnum saman skemmtilegu fólki og slettum úr klaufunum.  Ég verð bara að segja að ljónapartýið í ár óvenju fjörugt og skemmtilegt.

Af gamalli hefð hittumst við ljónynjur í dag til að rifja upp atburði næturinnar.  Emjandi af hlátri og skríkjandi af kátínu gerðum við heiðarlega tilraun til að borða gómsætan hádegismat.  Hlátrasköllinn bárust um allan staðinn á meðan við leystum úr misskilningi og rifjuðum upp sögurnar.  Það voru skoðaðar nærbuxur, tékkað á brjóstum, faðmast, karlmenn í kvennmannsskóm, skipt um föt... já, það var allt til staðar sem þarf að vera í almennilegu partýi!

Svo á sama tíma að ári? Pottþétt... 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband